Frænka fer erlendis

Wednesday, November 30, 2005

Hársnyrtistofa Margrétar, góðan dag

Fór í klippingu í morgun og ég get trúað ykkur fyrir því að þetta var í fyrsta sinn sem einhver annar en Magga Grétars snerti á mér hárið. (well, ég fór einu sinni í klippingu í Guatemala, borgaði ca 30 kr íslenskar fyrir hana og gæðin voru sannarlega í samræmi við verðið - arnór getur vottað það!)

Í morgun vaknaði ég ljótari en allt, var búin að fá mig fullsadda á að vera eins og ljón um hausinn; klæddi mig og rauk inn á hárgreiðslustofuna sem ég hafði haft augastað á. Ég var frekar stressuð, eins og ég væri að fara að láta taka úr mér endajaxlana og var næstum hætt við. Ég ákvað samt að panta tíma og mæta þá bara ekkert ef mér snérist hugur (já, þetta er svona mikið mál!) Þegar ég hafði loksins safnað kjarki til að fara að afgreiðsluborðinu, sagði konan mér að hún gæti bara klippt mig strax, þannig að 5 mín seinna sat ég með fangið fullt af hárgreiðslublöðum, kaffi í bolla, bleika slá um hálsinn og beið eftir þjónustu.

Ég veit ekki hvort það er eðlilegt, en það voru 4 aðilar sem komu að þessari klippingu minni.. er það þannig sem þetta virkar? Þannig er allavega ekki systemið á Hársnyrtistofu Margrétar, það get ég sagt ykkur. Fyrst kom stelpa, sem var ekki deginum eldri en 15 ára og þvoði á mér hárið - ég gat sossum alveg sætt mig við það. Svo kom lítill strákur og þurrkaði á mér hárið, sem var líka fínt. Svo kom klippikonan í öllu sínu veldi. Hún talaði með ótrúlega sterkum hreim svo ég skildi eiginlega ekki neitt sem hún sagði. Ég reyndi fyrst að segja henni hvað ég vildi en hún nennti lítið að hlusta á mig. Mér fannst hún leiðinleg og henni fannst ég klárlega líka leiðinleg því ég var alltaf að skipta mér af þvi sem hún var að gera.. hehh, örugglega ekki skemmtilegasti viðskiptavinurinn sem hún hefur fengið. Hún var líka alltaf að fara í burtu og klippa einhverja aðra á meðan ég sat eins og aumingi með rennblautt hárið, einu sinni sleikt aftur eins og mafíósi og í seinna skiptið var verra - þá skildi hún mig eftir með svona hrúts-topp og ég þorði ekki að breyta svo ég varð bara að gjöra svo vel og bíða svoleiðis! Klippingin hafðist eftir mikla bið og þá kom önnur stelpa og greiddi mér svo ég leit út eins og Hillary Clinton!

Ég var því með tárin í augunum þegar ég labbaði út og sór að ég færi aldrei neitt annað en til hennar mömmu minnar í klippingu

Núna hef ég grun um að nokkrir ónefndir vinir mínir séu komnir með kitl í magann af tilhlökkun að sjá ósköpin til að geta hlegið svolítið (ég held að arnór hafi aldrei skemmt sér betur en þegar ég leit út eins og aumingi eftir klippinguna í Guatemala..) EN þetta var ekki svo slæmt eftir allt því þegar ég var búin að bleyta hárið aftur og greiða það, þá er þetta bara fínasta klipping

en ég held það sé bara því ég hjálpaði henni svo mikið;)

Monday, November 28, 2005

jæja, ein ritgerð búin og önnur eftir... þetta er greinilega alþjóðlegt syndrome hjá kennurum að hrúga öllum ritgerðum og verkefnum á síðustu vikurnar fyrir jólafrí.

Það styttist í heimferð hjá mér, ég kem heim 15. des sem þýðir að það eru bara rúmar 2 vikur þangað til :)
Það er skrýtið að eftir því sem líður nær heimferð, fer hugurinn að sveima meir og meir á heimaslóðir. Ekki beinlínis heimþrá, en samt er hugurinn meira heima en undanfarið. Það verður gaman að hitta ykkur öll aftur. Ég er líka farin að hlakka til að rölta laugarveginn, fara á súfistann, á iðu, kaffitár, fara í sund, borða skyr, drekka gott kaffi og borða góðan mat. Það er skrýtið hvers maður saknar þegar maður er ekki heima. Ég hlakka til dæmis mjög mikið til að borða góðan mat. Það verður seint sagt um þessar elskur hérna að þeir bjóði upp á spennandi mat. Sambýlismenn mínir borða egg og beikon á hverjum einasta degi og brauðið er svo hvítt að það er ekki einu sinni bragð af því. Einn þeirra sagði mér meira að segja að hann vildi bara borða brauðið, hann vildi ekki að bragðið af því skemmdi bragðið af beikoninu, hann vildi það bara með sem uppfyllingu.. Þar hafið þið það!
Það er líka hægt að fá ALLT í niðursuðudósum.. og þá meina ég allt. Niðursuðudeildin er miklu stærri en deildin með ferska matnum.. þegar ég segi ferskt þá meina ég samt frosinn mat. Það verður pressa á Möggu Grétars að elda alla mína uppáhaldsrétti þegar ég kem heim :)

Saturday, November 26, 2005

það er svo mikið að gera að ég geri ekkert..

Thursday, November 24, 2005

Uppáhalds bókin mín

Það eru úldnir tímar framundan. Á meðan allir hamast í jólaundibúningi og almennum kammóheitum, eru aum örlög stúdentsins að vera í prófum. Eins og það sé ekki nógu slæmt að það er dimmt næstum allan sólarhringinn, þá þarf að bæta ofan á það samviskubiti og stressi fyrir komandi prófatíð.

Sumir njóta samt þessa tíma; að vera inni á náttfötunum allan daginn meðan það er ískalt úti, sökkva sér ofan í bækurnar með gott kaffi og hlusta á ljúfa tónlist. Það er líka mikilvægt að vera góður við sig í próftíð. Það felst ekki bara í óheyrilegu nammiáti og ruslfæði. Það ættu líka allir að kaupa sér nýjan geisladisk og góða bók.

Það er nauðsynlegt að hafa eitthvað skemmtilegt að hlusta á í pásunum eða á meðan lesið er.. Svo er gott að lesa eitthvað skemmtilegt þegar maður er komin upp í rúm á kvöldin. Mér finnst alveg nauðsynlegt að taka hugann frá námsefninu svona rétt fyrir svefninn, annars held ég bara áfram að þylja upp kenningar og ártöl alveg þangað til ég sofna og dreymir jafnvel námsefnið.

Þá er nú skárra að lesa eitthvað aðeins léttara og gleyma sér svolítið..

Ég á eina svona bók sem kemur mér alltaf í gott skap og ég get gripið í hvar og hvenær sem er. Ef þið eigið hana ekki, þá mæli ég með því að þið kaupið ykkur hana.
Þetta er bókin Albúm eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur.
Mamma mín sendi mér hana þegar ég var í Guatemala og ég las hana örugglega 100 sinnum þar. Ég get enn gripið í hana ef þannig liggur á mér og hún kemur mér alltaf í gott skap.

Hana nú – þá er predikun dagsins lokið.. Allir að vera góðir við sig og kaupa sér eitthvað fallegt og skemmtilegt :)

Sambýlismaður minn stendur í þeirri trú að ég sé mikill tölvusnillingur. Honum finnst alveg magnað að ég skuli vera með eigin heimasíðu og heldur greinilega að það taki langan tíma og mikið hugvit að koma upp síðu á blogger.com.

Hann var að opna bar og bað mig vinsamlegast að gera heimasíðu fyrir barinn og uppdeita hana reglulega. Í laun fæ ég að drekka frítt á barnum og þann eftirsótta titil vefstjóri.

Þetta er ekki amalegur díll

Ég byrjaði á síðunni i gær og ef þið viljið kíkja á snilldina, þá er slóðin www.thefrontroom.blogspot.com - hehe

ég á nú eftir að gera hana meira lekkera, þetta er bara byrjunin, en samt sem áður held ég að ég sé með ágætis díl hérna :)

Wednesday, November 23, 2005



Ég fékk þessa mynd senda í pósti um daginn og þetta er semsagt ég að hlæja.

Ég vildi deila henni með ykkur, og sérstaklega ykkur sem hélduð að það væri allt í lagi með mig - ég stórefast stundum um það..

Monday, November 21, 2005

Það er komið frost

Það er ógeðslega mikið af brekkum í Durham

= ég sá ca 30 manns detta á rassinn í dag


hahahahahaha

... ég á pottþétt eftir að fótbrotna út af þessari kaldrifjuðu færslu

Sunday, November 20, 2005



ÉG ÞARF GALSA Í LÍF MITT ÞESSA DAGANA!!

Thursday, November 17, 2005

Ég er lasin...

..og það er ekki gaman

Ég hélt reyndar að þetta myndi gerast miklu fyrr, þar sem það er alltaf rigning og ég er alltaf blaut í fæturna, það er ógeðslega kalt úti og það er ekki mikið hlýrra inni í íbúðinni minni. Það eru allir í húsinu mínu búnir að vera veikir og ég var farin að halda að ég slyppi bara við þetta

Nee, ég var nú samt ekki svo heppin og sit núna heima með hor og hita.

Það er annars eitthvað að termóstatinu í fólki hérna. Þegar ég kom hingað í endaðan september, fannst mér stelpurnar heldur galkópalega klæddar. Þær voru flestar í stuttum pilsum, engum sokkabuxum og skyrtu eða bol og gollu yfir. Ég hélt kannski að þetta væru leifar af sumartískunni og kippti mér lítið upp við þetta - Íslendingar eru nú líka þekktir fyrir að klæða sig ekki alveg i takt við veðrið..

En núna er veturinn kominn. Ég fer ekki út úr húsi nema í úlpu, með trefil, húfu og vettlinga EN vitið þið hvað? Stelpurnar eru enn í stuttum pilsum og engum sokkabuxum þegar þær fara í skólann! Það er í alvöru strákur í bekknum mínum sem kemur alltaf í svona tásandölum í tíma.. Þegar fólk fer á djammið hérna, er enginn í jakka. Stelpurnar eru í kjólum eða litlum toppum og strákarnir á skyrtunni eða stuttermabolum. Þetta er ótrúlegt, og mér verður kalt bara við að sjá þetta.

Það er gert mikið grín að mér fyrir að vera alltaf kalt, ég sé nú frá Islandi þar sem allt sé þakið í snjó. - við erum allavega í fötum þar..!

Tuesday, November 15, 2005

Í dag varð ég aumingi

Ég pantaði mat online. Þetta markaði ákveðin tímamót í lífi mínu, því ég áttaði mig á því að ég þarf aldrei framar að fara út úr húsi.

Þó þetta sé einstaklega aumingjalegt og örugglega einkum ætlað fyrir gamalt fólk sem á erfitt með gang og mikilvægt businessfólk sem hefur ekki tíma til að fara, þá hef ég sterk rök fyrir að nýta mér þessa þjónustu.

Mér finnst rosalega leiðinlegt í supermörkuðum og verð alltaf alveg brjáluð í skapinu á meðan á innkaupum stendur – með þessu móti get ég verið í herberginu mínu, hlustað á góða tónlist og jafnvel dundað mér við að versla á meðan ég á að vera að læra. Ég þarf ekki að rekast utan í fólk, ég þarf ekki að hlusta á grenjandi börn og ég þarf ekki að bíða í röð

Ég á erfitt með að rata og þessi súpermarkaður er eins og land út af fyrir sig, hann er svo stór. Ég er ekki viss um að mér sé óhætt að fara þangað ein, ég myndi aldrei rata út aftur. Ég finn heldur aldrei það sem mig vantar og ef ég er ekki með innkaupalista þá gleymi ég hvað ég ætlaði að kaupa og kem heim með fulla poka af engu – það er engin hætta á því að villast online. Ég finn líka allt sem mig vantar, því maður skrifar einfaldlega innkaupalistann inn, ýtir á enter og það er komið!

Það tekur líka 3 klst, mikla gremju, svita og verki í höndum að fara í supermarkaðinn og rogast með alla pokana til baka - það tekur í mesta lagi hálftíma að gera þetta á netinu og ég fann barasta ekki fyrir neinni gremju eða pirringi

Fyrir utan það nú að það kostar 5 pund að fara með strætó fram og til baka en það kostar bara 3.99 að fá þetta sent heim til sín

Af hverju var ég ekki löngu búin að fatta þetta?

Monday, November 14, 2005

Edinborg

Ég átti bara fína helgi

Á föstudaginn fór ég á tónleika hér í bæ. Hljómsveitin var ömurleg, þeir reyndu að fela hversu lélegir þeir voru með því að öskra, klæða sig úr að ofan og gefa milky way á milli laga. Ég var ekki hrifin.

Á laugardaginn brá ég mér svo til Edinborgar. Sem er nú sossum ekki í frásögu færandi.. nema haldið að ég hafi ekki rekist á föðurbróðir hennar Kollu Gunn þar?! Það var ótrúlega fyndið, sérstaklega í ljósi þess að ég hef ekki hitt neina íslendinga síðan ég kom hingað. (Ég sá reyndar hóp af blindfullum íslenskum mönnum rétt eftir hádegið í Newcastle um daginn, en skiljanlega hafði ég ekki mikinn áhuga á að tala við þá..)
Edionborg er ekkert smá falleg og ég mæli eindregið með henni. Ég ætla pottþétt að fara þangað aftur, við tækifæri. Það tekur ekki nema einn og hálfan tíma að fara þangað með lest, svo það er vel hægt að fara í dagsferð
Er einhver að hugsa um að gera jólainnkaupin þar?

Saturday, November 05, 2005



Fékk þessa mynd í pósti um daginn og mig langaði bara að deila henni með ykkur

Gullfallegt fólk alveg hreint sem ég á að! Þessi mynd gæti farið vel í gullramma á arinhillu meira að segja - ég læt samt nægja að hafa hana á desktoppinu í bili þar sem ég á hvorki íbúð né arinhillu

Thank you Anne - I love the photo ;*

og meiri fréttir..

Ég hef góðar fréttir fyrir þá, sem eru alveg að verða búnir að gleyma hvernig ég lít út eða eru ólmir að sjá hvernig ég bý hérna í útlöndum
Nils á neðri hæðinni á nefnilega diggara og hann er búinn að taka fullt af myndum hérna. Þar sem við erum oftast saman, þá eru þessar myndir af atburðum sem ég hef líka séð og þar sem þetta er myndavélin hans, þá er ég meira að segja á sumum myndunum. Hann kann ekkert á tölvur og ég á ekki myndavél, svo við ætlum að sameina krafta okkar og búa til myndasíðu.

jájá, þetta voru nú góðar fréttir og áhugaverðar.. ehh

Ég fór í fyrsta sinn á bókasafnið í gær OG lærði! Það var alls ekki svo slæmt, og ég held jafnvel að það gæti gerst aftur í nánustu framtíð

Ég er alveg búin að vera í holiday fílingnum hérna og mjög upptekin af því að vera í útlöndum. Ég hef semsagt ekki haft mikinn tíma til að læra, sökum verslunar- og kaffihúsaferða. Núna fer metnaðurinn vonandi að kikka inn, svo mér verði ekki hent heim um jólin ..

Það er annars helst að frétta að ég er byrjuð í jóga. Ég skil reyndar ekki orð af því sem kennarinn segir og þarf því stanslaust að horfa á manneskjuna við hliðina á mér til að vita hvað ég á að gera. Það getur verið frekar óþægilegt í sumum teygjum og að sama skapi slaka ég ekkert rosalega vel á, þar sem ég þarf alltaf að vera að rísa upp og athuga hvað hinir eru að gera. EN ég vona nú að þetta fari að koma - ég er allavega búin að ná innnnnnn-haaaaaaaale.... exxxxsssssssssssssss-haaaaale. Þetta er kennt í skólastofu (á skólatíma..) og er borðunum bara ýtt til hliðar. Mér finnst reyndar ekkert sérstaklega lekkert að mæta þarna á leggings og hlýrabol með dýnu undir hendinni þegar fólk í næstu stofu er að fara á fyrirlestur í stjórnmálafræði.. ég er ekki viss um ég myndi láta bjóða mér það í Odda, eða Aðalbyggingunni. - en ég er hvort sem er bara vitlaus skiptinemi, svo ég læt mig hafa það :)