Frænka fer erlendis

Wednesday, December 27, 2006

New Kids on the Block

Mér fannst strákarnir í New Kids on the Block einu sinni heitustu menn í heimi hér. Sjálf var ég barn og átti hvorki geislaspilara né geisladiska en þegar ég fór í heimsókn til frænku minnar, sem var unglingur og átti allar græjur þá hlustaði ég á þá dreymandi á svip með gæsahúð. Það eina sem ég átti til minningar um þá voru plaköt úr Æskunni og kasetta með lagi sem ég náði upp úr útvarpinu.
Ég rakst á myndband með þeim rétt í þessu og dæmi nú hver fyrir sig um karlemnnsku þeirra og stíl.
"Step by step, u baby..."

Monday, December 18, 2006

Get ég fengið jólafrí?

Thursday, December 14, 2006

Wednesday, December 13, 2006

Held ég sé dauðvona

Það er helst að frétta að leti mín og aumingjaskapur náði hæstu hæðum í gærkvöldi. Ég nennti ekki að elda frekar en fyrri daginn og ákvað því að skjótast í "kjörbúðina" mína, sem er tælensk matstofa/bar í nágrenninu. það koma fáir þangað og þeir hafa meira sérhæft sig í drykkjum og gegna hlutverki eina skemmtistaðar bæjarins um helgar. Það er samt með opið alla daga vikunnar og þarna má kaupa helstu nauðsynjavörur yfir barborðið. Ég var samt ekki í stemmingu til að kaupa kit kat og kók í kvöldmat, þannig að ég ákvað að panta mér mat hjá þeim. Ég fékk mér djúpsteiktar rækjur og tilheyrandi, stendur alltaf fyrir sínu hugsaði ég.
Ég var samt búin að gleyma hvað ég er að verða gömul og hvað djúpsteiktur matur er svaaakalegur!
Rækjurnar voru á stærð við tannstöngul (samt ekki svo langar) en ég sver að með djúpsteikingunni voru þær eins og meðal ástarpungur að stærð. Ég át semsagt fitu í kvöldmatinn.. með grjónum og súrsætri sósu. Óeðlilegi hluti þessarar annars áhugaverðu sögu er að þrátt fyrir að þetta væri eins og að éta eintóma fitu, þá kláraði ég allan skammtinn!! þetta þekkja þeir sem umgangast mig - ég hlýt að hafa verið hugrað barn í Afríku í fyrra lífi.
Jesús.. það var ekkert öðruvísi en það að ég sofnaði fljótlega eftir matinn í sófanum, með kjötsvima.. fitusvima.. - minnti mig á Kana í góðum holdum. Ég fann hvernig æðarnar tútnuðu út meðan fitan braut sér leið um kerfið, svo fékk ég meltingartruflanir. Nú er hálfur sólarhringur síðan átið stóð yfir og ég finn enn fyrir líkamlegum einkennum.

Þetta, saman við allan æsinginn í mér; yfir Grundarmálinu, Íslendingum að missa vitið í jólastressi, tillitsleysi fólks í umferðinni, hættuástand lögreglumanna, fátækt á íslandi og margt fleira getur ekki verið hollt fyrir frænku á mínum aldri. Þess vegna er ég að hugsa um að taka íslensku stemminguna á þetta og láta mér fátt um finnast um menn og málefni..
svo ætla ég aldrei að borða djúpsteiktan mat framar

Monday, December 11, 2006

Grundarmálið

Ég vil byrja á því að segja að ég ber mikla virðingu fyrir gömlu fólki.

Mér finnst að við eigum að hugsa vel um það fólk sem hefur lagt hart að sér við að byggja upp það samfélag sem við búum í í dag. Það er þessu fólki að þakka að við erum til.

Ég veit að aðbúnaður aldraðra á Íslandi er í mörgum tilfellum lélegur og ég veit líka að gamalt fólk er oft einmanna, því nánustu ættingjar hafa ekki tíma til að sinna því og starfsmenn dvalarheimilana eru fáir og ekki er tími til að sinna nema grunnþörfum hvers og eins.


Ég er 100% sammála að það þarf að gera eitthvað í málefnum aldraðra á Íslandi. Mér finnst samt ekki rétt að einhver stelpuskjáta sem aldrei hefur komið nálægt umönnunarstörfum fari undir fölsku flaggi eins og í amerískri bíómynd og skrifi sjokkerandi grein um ástandið. "Blaðamaður Ísafoldar starfaði á Grund í viku þar sem hann fékk innsýn í lífið og samfélagið á elliheimilinu eins og það er í raun."

- Maður fær ekki skýra eða rétta innsýn í neitt samfélag eftir einungis vikudvöl!
Ég veit heldur ekki um neinn sem hefur farið að vinna á nýjum vinnustað og verið með allt á hreinu og þekkt hvern krók og kima eftir eina viku!

Það er greinilegt við lestur greinarinnar að blaðakonan hefur litla þekkingu á umönnunarstörfum, og eins og við er að búast þegar byrjað er í nýju starfi kemur margt henni á óvart og sumt kemur óþægilega við hana. Ég hef sjálf unnið við umönnun og ég veit að það er ekki auðvelt að byrja í þessu starfi. Það er ástæða fyrir því að fólk þarf að búa inni á stofnunum, það er ástæða fyrir því að gamalt fólk er komið inn á dvalarheimili; það er hætt að geta séð um sig sjálft. Auðvitað er það óþægilegt til að byrja með að aðstoða fullorðið fólk við að sinna grunnþörfum sínum, en svona er þetta nú samt að þetta fólk þarf aðstoð og þarf að sinna því með vinsemd og virðingu. Þó þetta sé erfitt til að byrja með, venst þetta og allir sem hafa reynt vita hvað umönnun aldraðra er gefandi og skemmtileg.

Samt örugglega ekki þegar maður byrjar í starfinu með neikvætt hugarfar og hættir svo eftir viku.

Blaðakonan skrifar af lítilli virðingu við fólkið sem hún fjallar um og setur fram á ruddalegan hátt lýsingar af fólki sem augljóslega hefur misst getu til að sjá um sig sjálft. Hún skrifar nákvæmar lýsingar sem ekki eru við hæfi og þó nöfnum sé breytt þá segja þeir sem til þekkja að auðvelt sé að ráða í hver er hvað. - Ætli maður væri sáttur ef maður réði til sín heimilishjálp sem hætti eftir viku og þyrfti svo að lesa groddalegar lýsingar á heimilishaldinu í næsta tölublaði Vikunnar eða Mannlífs? Þessi grein átti líklega að vera skrifuð fyrir bættri aðstöðu gamla fólksins en er gróf innrás í einkalíf þess.

Þegar fólk eldist verða gjarnan á því skapgerðar og karaktersbreytingar. Þetta getur verið erfitt að koma auga á, sérstaklega fyrir manneskju sem kemur inn af götunni og þekkir lítið til. Þeir sem umgangast fólkið dagsdaglega þekkja hvern og einn persónulega og vita hvernig best er að vinna með þeim. Ég veit ekkert um starfsmannamál á Grund en mér finnst ekki líklegt að starfsfólkið sé svona illa innrætt og sinni vistmönnum eins illa og gefið er í skyn í greininni. Ég er svosem ekki að tala um Grund sérstaklega - mér finnst þetta bara lúaleg aðferð, léleg blaðamennska og óvirðing við einkalíf fólks.

Það getur ekki gefið rétta mynd af samfélaginu eða heimilinu Grund þegar manneskja sem ekki er vön umönnunarstörfum starfar þar í viku og ætlar að lýsa lífinu þar eins og hún sé fædd og uppalin þarna. Þessi aðferð að fara inn á einhvern stað undir fölsku flaggi virkar kannski í Amerískri unglinga bíómynd þegar verið er að fjalla um unglinga í framhaldsskóla, en hvað þetta mál varðar er þetta alls ekki við hæfi.

Mér finnst blaðakonan sýna fólkinu sem vinnur á Grund litla virðingu, fólkinu sem býr þar enn minni virðingu.

Mér finnst að hún og ábyrgðarmenn Ísafoldar ættu að skammast sín - þetta er lélg hugmynd.
Nær hefði verið að taka viðtal við starfsmann eða fá starfsmann sem þekkir vel til, til að skrifa greinagerð. Ef þeir vildu endilega gera þetta svona, hefði allavega verið hægt að fá manneskju með þekkingu á þessu sviði til þess að starfa þarna og meta stöðuna.

Ég er sammála Grundarmönnum að hafa kært og ég skora á ísafoldarmenn að birta ekki seinni hluta greinarinnar, af virðingu við aldraða, starfsmenn og aðstandendur þeirra.

P.s mér finnst líka asnalegt þegar verið er að tala um nístandi einmannaleika gamla fólksins í samhengi við undirmönnuð dvalarheimilin - eru það ekki ættingjarnir sem eiga að sjá um það að foreldrar þeirra, afar og ömmur séu ekki einmanna, ég bara spyr? Dvalarheimili eru ekki geymslur, heldur dvalarstaðir til þess að njóta síðustu áranna í öryggi og umhyggju.

Messutryllingur

Flest eigum við örugglega minningar frá því að sitja í kirkju við eitthvað tilefni, fá óstöðvandi flisskast og geta ekki með nokkru móti hætt að hlæja. Mamman við hliðina á manni að gefa olnbogaskot með ströngum svip og fólkið á bekknum fyrir framan farið að líta við með vanþóknunarsvip.

Þetta kom allavega fyrir mig oftar en einu sinni þegar ég var krakki og ég man alltaf hvað þetta var óþægilegt, því þó mann hafi langað að hætta að hlæja, þá bara gaaat maður það ekki.

Hélt kannski að þetta væri liðin tíð...

Síðast gerðist þetta í gær!

- sem er frekar neyðarlegt í ljósi þess að ég sat á fremsta bekk í dömulegum kjól með varalit og hafði hlutverki að gegna í messunni...

Friday, December 08, 2006

can someone buy me a flight to Durham - just for one weekend :)


Happy Birthday Matthew!
Wish I could have been there with you guys! :)

love the photos... and obviously you had fun without me being there.. what´s that?! hahaa :-D
Hide on a saturday in good company with a mojito, Hide on a sunday in a good company with a cappuccino!!!

miss you guys! :*

Wednesday, December 06, 2006

Segi upp!


Ég segi hér með upp störfum sem kennari, vinkona, dóttir, systir, húsmóðir og dama.. Ég segi upp öllum skyldum og störfum sem ég hef að gegna í samfélaginu

Beggi my man kom í dag og setti upp hjá mér sjónvarp.
Núna er ég með 99 stöðvar - eftir margra mánaða sjónvarpssvelti.
Næst á dagskrá hjá mér er að leggjast upp í sófa með teppi og vera þar þangað til fer að vora.

Adios!

Tuesday, December 05, 2006

framtakssemi á mánudegi..

í gær fékk ég mér bæði stutt hár og reykskynjara

bæði því sannarlega var kominn tími til

það sem varð til þess að ég fékk mér stutt hár var að ég sá myndir af mér úr afmælinu hennar Kollu

reykskynjara vegna þess að ég horfði á barnatímann á sunnudaginn í góðum félagsskap. þar var verið að fjalla um eldvarnir og ég mundi að þetta var eitt af því sem hafði setið á hakanum

Nú er bæði lubbinn horfinn og allir reykskynjarar komnir á sinn stað, svo ég er í nokkuð góðum málum í bili

Monday, December 04, 2006

mikið hlakka ég líka til að fara í klippingu á eftir

:)

UNO - you know

Bauð "saumaklúbbnum" í mat á föstudaginn. Ég bý nátturlega úti á landi og þá er nauðsynlegt að vera með gylliboð svo fólk komi í heimsókn, hehe:) Það var ekki 100% mæting en virkilega góðmennt. Við ætluðum á tónleika en enduðum með því að spila UNO :) Ágætis skipti myndi ég segja. Ég leyfði auðvitað gestunum að vinna, þó það sé nátturlega deginum ljósara að ég er meistari í leiknum..

Ég minnist þess að fyrir ca hálfu ári skrifaði ég langa færslu um mikla snilli þessarar vélar. Ég fékk miklar háðsglósur fyrir og fólk efaðist stórlega um að ég væri heil heilsu. Margir urðu samt forvitnir og úr varð að ég tók vélina með mér á mannamót. Þar kynntist fólk þessu undri og ég held að ekki líði á löngu þar til ég komist ekki út úr húsi án þess að vera með vélina góðu undir hendinni.. ekki líður á löngu þar til ég verð boðin í hús, útidyrahurð opnast, vélin verður tekin af mér og lokað á trýnið á mér. Jeminn hvað hef ég gert? - án UNO vélarinnar er ég ekki neitt..


og hvað er líka að gerast - nú hef ég skrifað tvær færslur um þessa vél :-S