Frænka fer erlendis

Monday, December 11, 2006

Grundarmálið

Ég vil byrja á því að segja að ég ber mikla virðingu fyrir gömlu fólki.

Mér finnst að við eigum að hugsa vel um það fólk sem hefur lagt hart að sér við að byggja upp það samfélag sem við búum í í dag. Það er þessu fólki að þakka að við erum til.

Ég veit að aðbúnaður aldraðra á Íslandi er í mörgum tilfellum lélegur og ég veit líka að gamalt fólk er oft einmanna, því nánustu ættingjar hafa ekki tíma til að sinna því og starfsmenn dvalarheimilana eru fáir og ekki er tími til að sinna nema grunnþörfum hvers og eins.


Ég er 100% sammála að það þarf að gera eitthvað í málefnum aldraðra á Íslandi. Mér finnst samt ekki rétt að einhver stelpuskjáta sem aldrei hefur komið nálægt umönnunarstörfum fari undir fölsku flaggi eins og í amerískri bíómynd og skrifi sjokkerandi grein um ástandið. "Blaðamaður Ísafoldar starfaði á Grund í viku þar sem hann fékk innsýn í lífið og samfélagið á elliheimilinu eins og það er í raun."

- Maður fær ekki skýra eða rétta innsýn í neitt samfélag eftir einungis vikudvöl!
Ég veit heldur ekki um neinn sem hefur farið að vinna á nýjum vinnustað og verið með allt á hreinu og þekkt hvern krók og kima eftir eina viku!

Það er greinilegt við lestur greinarinnar að blaðakonan hefur litla þekkingu á umönnunarstörfum, og eins og við er að búast þegar byrjað er í nýju starfi kemur margt henni á óvart og sumt kemur óþægilega við hana. Ég hef sjálf unnið við umönnun og ég veit að það er ekki auðvelt að byrja í þessu starfi. Það er ástæða fyrir því að fólk þarf að búa inni á stofnunum, það er ástæða fyrir því að gamalt fólk er komið inn á dvalarheimili; það er hætt að geta séð um sig sjálft. Auðvitað er það óþægilegt til að byrja með að aðstoða fullorðið fólk við að sinna grunnþörfum sínum, en svona er þetta nú samt að þetta fólk þarf aðstoð og þarf að sinna því með vinsemd og virðingu. Þó þetta sé erfitt til að byrja með, venst þetta og allir sem hafa reynt vita hvað umönnun aldraðra er gefandi og skemmtileg.

Samt örugglega ekki þegar maður byrjar í starfinu með neikvætt hugarfar og hættir svo eftir viku.

Blaðakonan skrifar af lítilli virðingu við fólkið sem hún fjallar um og setur fram á ruddalegan hátt lýsingar af fólki sem augljóslega hefur misst getu til að sjá um sig sjálft. Hún skrifar nákvæmar lýsingar sem ekki eru við hæfi og þó nöfnum sé breytt þá segja þeir sem til þekkja að auðvelt sé að ráða í hver er hvað. - Ætli maður væri sáttur ef maður réði til sín heimilishjálp sem hætti eftir viku og þyrfti svo að lesa groddalegar lýsingar á heimilishaldinu í næsta tölublaði Vikunnar eða Mannlífs? Þessi grein átti líklega að vera skrifuð fyrir bættri aðstöðu gamla fólksins en er gróf innrás í einkalíf þess.

Þegar fólk eldist verða gjarnan á því skapgerðar og karaktersbreytingar. Þetta getur verið erfitt að koma auga á, sérstaklega fyrir manneskju sem kemur inn af götunni og þekkir lítið til. Þeir sem umgangast fólkið dagsdaglega þekkja hvern og einn persónulega og vita hvernig best er að vinna með þeim. Ég veit ekkert um starfsmannamál á Grund en mér finnst ekki líklegt að starfsfólkið sé svona illa innrætt og sinni vistmönnum eins illa og gefið er í skyn í greininni. Ég er svosem ekki að tala um Grund sérstaklega - mér finnst þetta bara lúaleg aðferð, léleg blaðamennska og óvirðing við einkalíf fólks.

Það getur ekki gefið rétta mynd af samfélaginu eða heimilinu Grund þegar manneskja sem ekki er vön umönnunarstörfum starfar þar í viku og ætlar að lýsa lífinu þar eins og hún sé fædd og uppalin þarna. Þessi aðferð að fara inn á einhvern stað undir fölsku flaggi virkar kannski í Amerískri unglinga bíómynd þegar verið er að fjalla um unglinga í framhaldsskóla, en hvað þetta mál varðar er þetta alls ekki við hæfi.

Mér finnst blaðakonan sýna fólkinu sem vinnur á Grund litla virðingu, fólkinu sem býr þar enn minni virðingu.

Mér finnst að hún og ábyrgðarmenn Ísafoldar ættu að skammast sín - þetta er lélg hugmynd.
Nær hefði verið að taka viðtal við starfsmann eða fá starfsmann sem þekkir vel til, til að skrifa greinagerð. Ef þeir vildu endilega gera þetta svona, hefði allavega verið hægt að fá manneskju með þekkingu á þessu sviði til þess að starfa þarna og meta stöðuna.

Ég er sammála Grundarmönnum að hafa kært og ég skora á ísafoldarmenn að birta ekki seinni hluta greinarinnar, af virðingu við aldraða, starfsmenn og aðstandendur þeirra.

P.s mér finnst líka asnalegt þegar verið er að tala um nístandi einmannaleika gamla fólksins í samhengi við undirmönnuð dvalarheimilin - eru það ekki ættingjarnir sem eiga að sjá um það að foreldrar þeirra, afar og ömmur séu ekki einmanna, ég bara spyr? Dvalarheimili eru ekki geymslur, heldur dvalarstaðir til þess að njóta síðustu áranna í öryggi og umhyggju.

5 Comments:

  • heyr heyr stelpa!
    Hef ekki lesið greinina, en er sammála því að svona úttekt á að vera gerð af fagfólki, einhverjum sem hefur vit á þessum málefnum á Íslandi, þ.e. ef tilgangur hennar á að vera einhver annar en að slúðra og búa til fjaðrafok vegna skoðunar stúlkugemlings sem vinnur við að þrykkja peysur.
    Best að kaupa þetta blað og lesa greinina!

    Mæja Mc Beal

    By Anonymous Anonymous, at 2:53 AM  

  • Úff hvað ég er sammála þér Heiðrún. Finnst stundum að svona "rannsóknarblaðamennska" sé oft einungis stunduð til þess að koma með vondar fréttir en ekki til þess að leiða sannleikann í ljós. Það hefði varla þótt birtingarhæft hefði hún sagt góðar fréttir af starfsfólki og aðbúnaði fólksins.
    HELGAk

    By Anonymous Anonymous, at 3:03 AM  

  • hér í Útópíu velferðarkerfisins er að finna elliheimili þar sem vistmönnum er boðið upp á ferðir með loftbelg á laugardögum.

    Sá þátt með þessu um daginn og krúttlegt að sjá elliærar gimbrar alveg að míga yfir sig af spenningi í 500 metra hæð yfir sjávarmáli.

    Arnór
    Bara svona smá innlegg í umræðuna.

    By Anonymous Anonymous, at 5:38 AM  

  • já hvernig væri það - senda gamlingjana bara til Danmerkur? þá þyrftu ættingjarnir allavega ekki að hafa samviskubit yfir því að hafa aldrei tíma til að heimsækja. Það væri hægt að fá sér ferð fyrir jólin og versla í leiðinni :)..nú og skoða myndir af ömmu á jet ski :)

    By Blogger Heidrun, at 6:01 AM  

  • Sæl frænka,
    hef reyndar aðeins heyrt umræðuna en ekki lesið greinina. Samt sem áður- einsog talað út út mínu hjarta.

    Og gleðileg jól ! :)

    By Anonymous Anonymous, at 8:12 AM  

Post a Comment

<< Home