
það er skemst frá því að segja að ég er komin með vinnu!
Hún felst í því að skúra bar í götunni minni 2 klst á dag. Starfið er afar hentugt, bæði því það tekur mig eina og hálfa mínútu að fara þangað og líka því það er aldrei neitt að gera á þessum bar og þess vegna eyði ég þessum 2 klst í að þrífa ekki neitt. Það er einn starfsmaður sem vinnur þarna og við mætum bæði klukkan 9; hann drekkur kaffi, les blöðin, stillir útvarpið og gengur um gólfin sem ég skúra. Fyrst velti ég því fyrir mér af hverju ég væri eiginlega ráðin þarna, en núna hef ég komist að því að ég var ráðin þangað til að halda honum félagsskap. Hann er þarna einn allan daginn greyið og þó það nú væri að hann fengi félagsskap af þrífikonu svona í morgunsárið :)
Þetta er alls ekki leiðinlegt hlutverk að skemmta honum, því hann er alveg nákvæmlega eins og Dafydd Thomas úr Little Britain! Alveg satt!!
Hann er 24 ára, býr í litlu þorpi rétt fyrir utan Durham, enn heima hjá mömmu og pabba, langar ótrúlega að flytja í burtu en er ekki alveg tilbúinn, honum finnst alveg ótrúlega leiðinlegt í vinnunni og vorkennir sér gríðarmikið. Þetta veldur því að hann er svakalega fúll og með alveg ííískaldan húmor, eins og hann gerist bestur! :) Honum leist nú ekkert á mig til að byrja með og skipti sér lítið af mér en núna er þetta held ég allt að koma.. Hann er farinn að færa mér kaffi klukkan tíu og í morgun las hann upp úr slúðurblaðinu sínu fyrir mig. Hann á að kaupa dagblöðin til að hafa á barnum, en alveg síðan ég byrjaði hefur hann komið með bunka af slúðurblöðum í staðinn "I just can´t help it, every day I need me gossip!"