Frænka fer erlendis

Sunday, October 23, 2005

húsið mitt

Fyrstu vikurnar var fólk að flytja inn og út úr íbúðinni minni, næstum því á hverjum degi. Ég kippti mér lítið upp við það að borða morgunmat með ókunnugu fólki og nennti ekki að leggja nöfnin þeirra á minnið. Sumir voru sóðar með læti, aðrir voru bara inni í herbergjunum sínum og enn aðrir komu með alla vini sína með sér á daginn svo það var oft ansi þröngt í eldhúsinu og maður þurfti að bíða eftir að komast á klósettið.

Núna er þetta samt farið að róast og ég held að það eigi ekki fleiri eftir að flytja inn. Eitt herbergi er reyndar laust, en það er svo ljótt og lítið að ég held að það verði bara tómt í vetur. (ég held að spænsk stelpa hafi átti metið þar, hún var í 5 daga en flutti svo út – flestir entust ekki meira en 2 nætur)

Ég ætla því að gefa ykkur smá yfirlit yfir meðleigjendur mína, því ég á líklega eftir að minnast eitthvað á þá í vetur. Ég get samt ekki sagt nöfnin á þeim, því þá fatta þau..

Við hliðina á mér í herbergi er frönsk stelpa. Hún er alltaf inni í herberginu sínu og borðar meira að segja þar. Hún reykir líka þar, hefur gluggann galopinn og þar sem minn gluggi er líka galopinn við hliðina á hennar glugga, þá er þetta eins og á meðal kaffihúsi hérna inni í mínu herbergi. Hún er samt alveg indæl en ég hitti hana bara ekkert voðalega oft

Í herberginu við hliðina á mér hinum meginn býr guðfræðinemi. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar og ætlaði aldeilis að láta hann kenna mér hvernig þessi guðfræðideild virkaði. Það var áður en ég hitti hann... Daginn sem hann flutti inn voru mikil læti. Hann skipaði foreldrum sínum fram og til baka og þegar ég bauð fram aðstoð mína við að bera kassa, sagði hann að þau gætu alveg gert þetta. Hann sat sjálfur í stól í annars tómu herbergi og lyfti ekki litla fingri. Eftir þessa frábæru og hávaðasömu innkomu held ég að ég hafi séð hann ca 10 sinnum. Hann hefur greinilega orðið alveg bensínlaus á allri frekjunni og núna lætur hann ekki á sér bæra. Hann á engann mat í ísskápnum, enga sápu í sturtunni og hann sést aldrei frammi. Fyrst hélt ég að hann væri aldrei heima, en núna veit ég að hann er ALLTAF heima. Ég veit ekki hvað hann er að gera í herberginu sínu og ég veit ekki hvað hann borðar, en ég veit að alltaf þegar ég mæti honum á ganginum, fælist hann! Ég segi hæ - hann lítur upp, niður, til hliðar eins og hann sé að vonast til að sleppa frá þessum hræðilegu örlögum og stynur svo upp haaaaaæææææææ.... svo flýtir hann sér aftur inn í herbergið sitt og lokar. Ég er alveg búin að gefa upp á bátinn fróðlegar og innihaldsríkar samræður um guðfræðileg málefni

Á móti mér í herbergi er strákurinn sem var hérna þegar ég flutti inn. Hann er alveg frábær! Ég skil enn ekki margt sem hann segir, en ég skil þó meira en í byrjun. Ekki nóg með að hann sé með teina, heldur er hann með teygjur sem halda efri og neðri góm saman. Það veldur því að hann frussar mikið talar mjög óskýrt. Hann er svakalega horaður en samt fer mikið fyrir honum og þegar hann labbar er eins og það sé 200 kg risi á ferðinni. Til dæmis, er brattur stigi sem liggur upp í eldhúsið okkar og þessi elska getur aldrei labbað upp hann, heldur stekkur hann upp ca 3 tröppur í einu og hleypur svo eins hratt og hann getur niður og reynir að fara stigann í sem færstum þrepum. Þetta gerir hann seint á kvöldin og snemma á morgnana. Fyrstu dagana hélt ég alltaf að hann væri að detta niður stigann, því það voru svo svakaleg læti en núna veit ég að hann hefur bara mjög gaman af því að stökkva. Nýjasta metið sem hann er að reyna að ná er að stökkva jafnfætis upp 4 efstu þrepin, snúa sér í loftinu og lenda. Þetta er ekki djók, hann æfir þetta alltaf þegar hann kemur upp í eldhúsið og er alltaf næstum því dottinn. Ég veit ekki hvort hann lifir þennan vetur af.. Okkur semur alveg vel, við höfum sama tónlistarsmekk og hann á ógeðslega mikið af tónlist, svo við skiptumst á tónlist og höfum um margt að tala í þeim efnum (það er reyndar ekki mikill fróðleikur í þeim samræðum fyrir mig því ég skil svo lítið, en samt..)

Svo býr hérna lika haninn sem ég fór ekki svo fögrum orðum um hérna fyrir nokkru síðan. Það gengur samt allt í lagi á milli okkar núna, ég svara honum bara fullum hálsi þegar hann er að grobba sig af kvennhylli sinni og almennum kostum. Hann er líka hávær en samt hress líka, svo það er fínt að hafa hann hérna. Hann er laganemi og stundar box, svo það er kannski eins gott að vera ekki með of mikinn kjaft við hann (Arnór ætlaði fyrst að fara að þræta við hann og vera með kjaft, en steinhætti við þegar ég sagði honum að hann æfði box og væri á bannlista á helstu skemmtistöðum bæjarins fyrir ólæti)

Ef ykkur líst vel á þetta og langar til þess að flytja til Durham í einhvern tíma, þá er eins og ég sagði eitt herbergi laust. Það er að vísu gluggalaust og málað dökkblátt og dökkrautt, svo það er eins og lítill hellir en ef þið eruð vön þannig herbergjum þá eruð þið bara velkomin

6 Comments:

  • Svona viðhafnar gestir eins og ég vilja bara gista uppí ef maður kemur á svæðið. Ég mæli samt eindregið með því að fólk kíki á svæðið, hresst fólk, þó þú gleymir að minnast á aðal snillingana frá Þýskalandi sem náttla ættu að vera á launum frá þýska ríkinu fyrir að bæta ímynd þess.

    By Blogger addibinni, at 1:24 AM  

  • satt nommi, þau eru flott! Það er vel þess virði að koma bara til þess að hitta skemmtilega þjóðverja. Veistu hvað er það besta; nýjasta djókið er að spotta út Vicky Pollard stelpur og þegar maður hefur augun opin fyrir því, er óhugnalegt hvað eru margar sem eru alveg nákvæmlega eins og hún!!

    By Blogger Heidrun, at 11:26 AM  

  • þú verður eiginlega að koma aftur til að sjá það, þetta er ótrúlegt!

    By Blogger Heidrun, at 11:26 AM  

  • hey, snilldar frásögn Heidrún. Eg var alveg búnað lifa mig inn í aðstæðurnar þínar:) Hef ekki enþá hitt marga skemmtilega þjóðverja, þannig að þetta hlýtur að vera magnaður staður víst að þjóðverjar eru meraðsegja skemmtilegir þarna. Durham það er málið, ha, þaheldég!

    By Anonymous Anonymous, at 1:23 PM  

  • ég vil koma og sjá Jónatan..ég er farin að elska mannin án þess að hafa hitt hann! Hvernig gekk í IKEA, frussaði hann mikið?

    By Blogger Kolbrun, at 3:38 PM  

  • Já rúnar, ég held þau séu þau einu svo það er vel þess virði að koma og skoða þau!

    Jónatan getur alveg fylgt í kaupunum fyrir þá sem koma vegna þjóðverjanna... hann er kapítuli útaf fyrir sig!

    Ég sá hann nú varla neitt í IKEA, hann hljóp í burtu um leið og við
    komum inn og ég sá honum stundum bregða fyrir, kominn úr peysunni og í algeru verslunaræði..

    Ég er ekki að grínast, hann valhoppaði í gegn um alla lestarstöðina og ég vissi ekkert hvað ég átti að gera - of hægt að labba, en of hratt að hlaupa við hliðina á honum. Ég hefði kannski bara átt að valhoppa?

    By Blogger Heidrun, at 6:16 PM  

Post a Comment

<< Home